Sér íslenskt!

Get ekki skilið hvað gert er mikið veður út af þessari aðildarumsókn. Að mínu mati var þetta ekkert stórmál og engin tímamótaviðburður. Hins vegar er ég spenntur fyrir niðurstöðum samninganna og þjóðaratkvæðagreiðslunni um samninginn, þá getum við farið að tala saman - það er það sem skiptir máli, ekki þessi umsókn.

Svo finnst mér Bjarni Harðar, sá skemmtilegi og viðræðugóði maður alveg vera að missa sig í umræðunni. Talandi um landráð og fullveldisafsal og þaðan af verra. Heyrði svo Pétur Blöndal, (sem einnig getur verið skemmtilegur og viðræðugóður!) tala um að Danmörk væri ekki fullvalda ríki lengur! Hvernig geta menn bara yfir höfuð leyft sér að hreyta svona í kringum sig?

Svona öfgafullir evrópuandstæðingar eins og Bjarni Harðar og Pétur Blöndal eru með ummælum sínum í raun að dæma meirihluta kjósenda og fulltrúa þeirra um gjörvalla evrópu sem landráðafólk sem búið er að afsala sér fullveldinu. Er ekki komið nóg af þessu sér-íslenska yfirgangi og hroka, ég bara spyr?


Hinn harði dómstóll götunnar

Hann getur verið óvæginn dómstóll götunnar. Honum hefur líka vaxið fiskur um hrygg með breyttri fjölmiðlun, fjölpósti, netmiðlum, heimasíðum og bloggi með athugasemdakerfi sem í raun er heill (net)heimur út af fyrir sig. Frá því í haust hafa það verið aðilar í viðskiptalífinu sem hafa fengið að kenna á því, að viðbættum fólki í stjórnmálum að einhverju leyti.

Að mínum mati er hins vegar full ástæða til að stilla í hóf þessum dómum. Auðvitað er hrikalegt hvernig farið hefur fyrir okkar efnahagskerfi á stuttum tíma. Gleymum því samt ekki að margir af þessum sömu mönnum sem þyngsta dóm götunnar hljóta núna voru dásamaður út um allt fyrir einungis nokkrum mánuðum. Það sem gerst hefur er miklu flóknara en svo að einstaka aðilar verði dregnir út sem sökudólgar.

Gleymum því ekki að það eru fulltrúar okkar íslendinga allra sem sitja á alþingi á hverjum tíma og velur sér framkvæmdavald. Saman fara þessir aðilar með vald yfir öllum leikreglum sem hér gilda, öllu lagaumhverfi, hvað það er sem má og ekki má, hverir veljast til að fara með dómsvaldið og eftirlitsstofnanir og með hvaða hætti menn veljast til að stýra Seðlabankanum, æðstu peningastofnun landsins. Gleymum því ekki heldur að það eru alltaf til, og verða alltaf til aðilar sem svífast einskis í viðskiptum, eða héldu menn annað - eða halda menn annað?

Það sem eftir stendur er að hér hafa tvö mikilvæg pólitísk atriði mistekist hrikalega. Hið fyrra er úthlutun veiðiheimilda, sem með veðsetningarheimild hlaut ígildi gjafar. Þannig hefur einstaka aðilum, sem jafnvel ekki stunda sjávarútveg lengur, gefist heimild til að veðsetja okkar sameiginlegu auðlind á ógnvænlegan hátt.

Hið seinn er að sjálfsögðu einkavæðing bankanna. Menn hljóta bara að vera sammála um að sú aðgerð hafi mistekist hrikalega! Það voru svo sem ekki margir á móti því sem slíku að gera það, en það var meira hvernig það var gert, og hvernig umgjörðin var í kringum öll þau mál sem að mistökin liggja. Eftir á að hyggja vorum við greinilega ekki tilbúin undir þetta. Við vissum ekki hvort bankarnir mættu fara í útrás, vissum ekki hvort bankarnir höfðu ríkisábyrgð, hvor innistæður væru ríkistryggðar, vissum ekki hvort stjórnendur mættu taka lán í bönkunum og kaupa hlutabréf á háu gengi með veði einungis í bréfunum sjálfum.....

Nei, ábyrgðin er okkar allra, líka okkar sem ekki kusu þá sem fóru með þetta framkvæmdavald þegar þessu öllu var hleypt af stað. Samt verður ekki hjá því litið að einn stjórnmálaflokkur hefur farið með afgerandi vald og aðstöðu á öllum þessum tíma sem gröfturinn í bóluna hlóðst upp! Þar fyrir utan vill þannig til að valdið, og þar með aðstaðan til að grípa í taumana, virðist hringa sig um einn mann. Það var jú sami maðurinn sem var forsætisráðherra nær allan tímann, hafði "rússneskt" umboð síns flokks allan tímann og var að lokum yfirmaður æðstu peningastofnun landsins þegar mest á þá stofnun reyndi. Þá er nokkuð víst að hinn farsæli fyrrum formaður flokksins hafi haft góðan aðgang að arftökum sínum ef það hefur verið eitthvað sem hann hefur viljað koma til leiðar eða koma með vinsamlegar ábendinar um varðandi peninga- banka- eða gjaldeyrismál landsins, valdið var nánast allt þeirra!

Hins vegar er Davíð Oddsson fyndinn og skemmtilegur. Hann var líka lengst af heillandi stjórnmálamaður og við hrifumst af honum. Auðvitað göngum við líka út frá því að hann hafi viljað þjóð sinni allt hið besta, líka þegar kvótakóngar fengu að veðsetja kvótann og þegar S-hópnum og Björgólfsfeðgum voru seldir Búnaðarbankinn og Landsbankinn. Hann réði þessu líka ekki einn, langt því frá. Að baki honum var ríkisstjórn, að baki henni þingmeirihluti og að baki honum þjóðarmeirihluti. Þess vegna verður ekki einstökum stjórnmálamönnum eða "útrásarvíkingum" kennt um þetta banka- og efnahagshrun, heldur okkur sjálfum sem þjóð. Þetta var einfaldlega of flókin viðfangsefni. Spurningin er bara sú núna hvort við berjum okkur á brjóst, reynum bara að stoppa í stærstu götin og gerum aðra tilraun, eða eitthvað allt annað?


Af mér og þjóðinni

Hef lagt mitt af mörkum í sparnaði i heilbrigðiskerfinu í dag! Átti í dag að fara í aðgerð vegna brjósklos sem hefur hrjáð mig um nokkura vikna/mánaða skeið, en ákvað (reyndar í samráði við lækni) að hætta við, eða fresta aðgerðinni um sinn a.m.k.

Leyndardómurinn að "baki" brjósklos, sem margir hafa þjáðst af, er að í 97% tilvika læknar líkaminn sjálfur meinið innan árs. Það er reyndar svolítið langur tími en um 80% tilvika jafnar sig á 6 vikum. Mér hefur hefur sem sagt verið að skána að undanförnu þannig að ég ákvað að bíða og sjá til.

Aftur að þjóðinni - mér skilst að nú vanti 20 milljarða í ríkiskassann! Þetta er að sjálfsögðu gríðarlega mikið, eða hvað? Heyrði því fleygt að á Íslandi væru um 200 þúsund skattgreiðendur. Ef að lagður er á sérstakur "kreppuskattur" upp á 10þúsund kall á haus að meðaltali (breytilegt eftir tekjum) þá væri þetta komið! Ein fylling á bílinn takk, það eru nú öll ósköpin!


Þversögn leiðtoga sjálfstæðisflokksins

Því meira sem er að marka meintar viðvaranir fyrrverandi seðlabankastjóra og formanns Sjálfstæðisflokksins um komandi banka- og efnahagshrun, því glórulausari var fjármála- og hagstjórn ráðherra flokksins. (Varla er hægt að kenna um sambandsleysi þessara félaga.) Svo eigum við einhvernvegin að halda að báðir aðilar segi satt og efnahagshrunið sé einhverjum öðrum að kenna!

Einum of "faglegur" viðskiptaráðherra

Auðvitað er það ekki góð hugmynd í eðli sínu að hætta að borga af lánum sínum ef maður mögulega getur borgað, þá bætast við innheimtuaðgerðir og kostnaður þar ofan á og allskyns vesen! Öfugt við það sem Gylfi Magnússon viðskiptamálaráðherra virtist halda þá vita þetta reynda líka þeir sem hafa verið að viðra þessar hugmyndir. En það sem hann virðist ekki skilja er að hér er verið að tala um hugmynd að tiltekinni aðgerð til að mótmæla því sem mörgum finnst vera hróplegt óréttlæti í málefnum skuldara þessa lands, þ.e.a.s. því að tilteknum hópi þessa lands (skuldurum) skuli vera ætlað að bera hitann og þungan af þessu efnahagshruni sem stjórnvöld bera ábyrgð á, sem varð í kjölfar bankahrunsins. Í þessu máli er Gylfi einum of "faglegur" sem ráðherra og talar í raun niður til fólks!

Bíddu nú við!

Átti ekki að auka völd og vægi alþingis á kostnað framkvæmdavaldsins (ríkisstjórnar)? Nú talar Steingrímur J. allt í einu um að stjórnarflokkarnir þurfi að "semja" um ESB umsókn. Bíddu nú við, er ekki nóg að alþingi samþykki það? Er nú ekki nóg komið af ofríki framkvæmdavaldsins á kostnað alþingis? Ef það er meirihluti fyrir þessu máli á alþingi þá þarf bara ekkert að ræða þetta frekar!


Nú eru valkostirnir skýrir

Þá er þetta orðið nokkuð skýrt með flokkana og ESB aðild, ef maður vill að Ísland sækist eftir aðildarviðræðum við ESB kjósa menn Samfylkinguna, ef ekki kjósa menn aðra flokka (eða enga!).

Frábærir þættir hjá Agli Helga

Horfði á Kiljuna í síðustu viku og Silfur Egils á sunnudaginn var og hvet alla til að gera slíkt hið sama, frábærir þætti hjá manninum. Silfrið fannst mér óvenju gott, frábærir viðmælendur, upplýsandi og góður þáttur að mínu mati. Eina rétta að halda stjórnmálamönnum utan við þáttinn (Þó Sverrir Hermanns hafi fengið að fylgja með). Því var m.a. haldið fram að við gætum átt von á öðru efnahagshruni ef við ekki gengjum í ESB! Efast um það, en ég efaðist líka síðast...

Sækjum bara um!

Hún er botnlaus umræðan um evrópumál sem nú á sér stað. Sækjum bara um, ræðum svo kostina og gallana þegar þeir liggja fyrir, hvað er að því?

Skattahækkun-hagræðing, eigum við eitthvert val?

Ég fæ nú ekki betur séð en að það veiti ekki af því að setja allt laust fjármagn á landinu í þessa skuldahít sem nú hleðst upp hjá ríkissjóði. Samanlagðar boðaðar skattahækkanir, launalækkanir, hagræðingaráform allra stjórnmálaflokkanna munu víst bara ná upp í brot af þessu!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband